1.3.2007 | 11:13
Jæja þá
Það er kannski kominn tími til að skrifa eitthvað hérna inn.. Ég var nú ekkert alveg viss um hvort ég ætti að vera að rembast eitthvað við að blogga, en kannski ég nenni að henda inn færslu öðru hvoru.
Það sem er mér svo oft efst í huga er karfan. Sumir segja að þetta sé brjálæði, aðrir segja að körfuboltinn sé fíkn, ég segi að það að spila körfubolta er eitt af því sem hefur gefið mér mest í gegnum árin. Auðvitað gengur þetta upp og niður og það hefur oft sannast hvað línan milli hláturs og gráturs er örmjó. Svo eru þeir sem stunda boltann af fullum krafti alltaf að fórna tíma sínum sem svo auðveldlega væri hægt að eyða á miklu skynsamlegri máta, eins og að eiga stundir með sínum nánustu og heimsækja fjölskylduna. En það er því miður ekki hægt að vera á fleiri en einum stað í einu. Það er líka nokkuð ljóst að líkaminn kemur ansi lemstraður heim af sumum æfingum og leikjum. Snúnir ökklar, aumir vöðvar, marblettir hér og þar.
Bíddu nú við, núna finnst sjálfsagt flestum að ég sé bara búin að telja upp hluti sem eru neikvæðir.. hvað sér hún eiginlega gott við þetta allt saman?? Jú á þessum 10 árum sem ég hef eytt í æfingar og púl þá hef ég kynnst frábæru fólki. Ég hef fengið tækifæri til að vera hluti af liði þar sem allir standa saman í gegnum súrt og sætt. Ég hef farið í skemmtilegar keppnisferðir og fengið þann heiður að syngja íslenska þjóðsönginn í búning fánalitanna og spila leiki fyrir hönd landsins míns. Og þeir sem þekkja mig vita að ég elska landið mitt. Á þessum tíu árum hef ég lært mikið um sjálfa mig, sem og aðra. Öðlast hugrekki sem ég vissi ekki að ég ætti í mér, lært að bera virðingu fyrir sjálfri mér og öðrum, tekið ábyrgð, sinnt ákveðnum hlutverkum og verkefnum inni á vellinum sem og utan hans, og alltaf alltaf halda áfram að berjast fyrir þínu. Ekki gefast upp. Ég hef tapað og ég hef staðið uppi sem sigurvegari. Grátið og hlegið. Allt þetta hefur gefið mér svo mikið að hverjum er ekki sama um nokkra marbletti.
En þetta gæti ég heldur ekki gert ef ég ætti ekki frábæra fjölskyldu sem mér þykir rosalega vænt um. Ég gleymi því ekki þó að tíminn fari í boltann. Þið eruð það dýrmætasta sem ég á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.